„Dánartíðnin er miklu hærri í Afríku en annars staðar í heiminum vegna skorts á nauðsynjum,“ er haft eftir Bruce Biccard, prófessor við háskólann í Cape Town í Suður-Afríku. Hann sagði einnig að í raun fái aðeins annar hver COVID-19 sjúklingur, sem hefur þörf fyrir gjörgæslumeðferð, í Afríku nauðsynlega meðferð.
Í rannsókninni, sem er byggð á 3.000 COVID-19 sjúklingum í 10 Afríkuríkjum, kemur fram að þetta snúist um skort á nauðsynjum. Það vantar mikilvægan tækjabúnað og einnig vantar sérhæft starfsfólk. Í sumum tilfellum var nauðsynlegur tækjabúnaður til staðar en var ekki notaður.
Biccard sagði að rannsóknin sýni þörfina fyrir að skipta bóluefnum gegn veirunni jafnar á milli ríkja heims. Þar sem fátæku ríkin hafi litla möguleika á að meðhöndla sjúklinga sé rétt að beina áherslunni að bóluefnum til að koma í veg fyrir alvarlega faraldra.