Ástralar tilkynntu um lokun sendiráðsins og sögðu ástæðuna vera skort á öryggi í landinu. Margir sérfræðingar hafa einnig bent á að mannúðarsamtök muni neyðast til að hætta störfum í þessu stríðshrjáða landi þegar erlendar hersveitir hafa verið fluttar á brott í haust. Þá má að þeirra mati búast við enn meira ofbeldi, átökum og sprengjuárásum.
AFP hefur eftir Mahammad Naeem, talsmanni Talíbana, að hreyfingin fullvissi alla erlenda stjórnarerindreka og allt starfsfólk mannúðarsamtaka um að þeim stafi engin hætta af Talíbönum. „Við munum tryggja þeim öruggt starfsumhverfi,“ sagði hann.
Talíbanar ráða lögum og lofum eða eru áhrifamiklir í um helmingi landsins. Þeir hyggjast velta lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn landsins sem nýtur stuðnings alþjóðasamfélagsins. Auk Talíbana lætur Íslamska ríkið einnig mikið að sér kveða í landinu.