Samkvæmt ferðaráðleggingum bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að Japan sé nú í hæsta áhættuflokki að mati bandarísku smitsjúkdómastofnunarinnar. Því eigi fólk að forðast að ferðast þangað.
Fram kemur að vegna þess hvernig ástandið er í landinu eigi jafnvel bólusett fólk á hættu að smitast af kórónuveirunni og bera hana með sér og smita aðra.
Bandarísk stjórnvöld skilgreina 80% af heimsbyggðinni sem áhættusvæði í hæsta flokki vegna heimsfaraldursins.
Nú greinast um 6.000 smit á dag í Japan en voru um 1.000 í mars. Aðeins er búið að bólusetja um tvö prósent þjóðarinnar með að minnsta kosti einum skammti. Ástæðan er skortur á heilbrigðisstarfsfólki og sprautum.