Sýkingin er lífshættuleg og nú eru Indverjar að verða uppiskroppa með eina lifið sem virkar gegn sjúkdómnum. Um er að ræða svokallaðan svartan svepp, mukromyukose, sem er afar sjaldgæfur en hins vegar mjög illskeyttur þegar hann nær að sýkja fólk sem er með veikburða ónæmiskerfi.
Yfirleitt er það sykursjúkt fólk sem er í einna mestri hættu á að smitast af sveppnum eða fólk með aðra blóðsjúkdóma. Sveppurinn berst inn í æðarnar og sýkir til dæmis vef í ennisholum, heila, húðinni og lungunum.
Tölur frá Indlandi sýna að 84% þeirra sem smitast af sveppnum núna er fólk sem hefur verið með COVID-19. Möguleg ástæða þess er að margir COVID-19 sjúklingar eru meðhöndlaðir með lyfjum sem slá á virkni ónæmiskerfisins. Um 5.500 tilfelli hafa greinst að undanförnu.
COVID-19 sjúklingarnir fá oft fyrstu einkenni sveppasýkingarinnar þremur til fjórum vikum eftir að þeir hafa jafnað sig. Þeir kvarta þá undan sjóntruflunum og verkjum öðru megin í andlitinu. India Today skýrir frá þessu.
Mukormykose er nánast alltaf banvæn sýking ef hún er ekki meðhöndluð fljótt. En læknar segja að nú sé lyfið Amphotericin-B, sem er notað gegn sýkingunni, að verða búið í landinu og það sama á við um stera sem eru notaðir með lyfinu.
Sveppurinn berst með lofti, eins og kórónuveiran. Ef sjúklingar fá ekki meðhöndlun ræðst sveppurinn á andlitið og sjúklingar eiga á hættu að missa augu, nef eða aðra hluta andlitsins. Þrátt fyrir að hægt sé að veita meðhöndlun við sjúkdómnum þá er hann oft banvænn. Læknar segja að miklu máli skipti að hefja meðferð á fyrstu þremur til fjórum dögum sýkingarinnar. Dæmi eru um að læknar hafi þurft að taka augu úr fólki vegna sjúkdómsins. Að minnsta kosti 200 manns hafa látist af völdum hans fram að þessu.