The Guardian skýrir frá þessu. Stewart birti mynd af mygluosti á dulkóðaða samskiptaforritinu EncroChat og kom þar með sjálfum sér í vanda. Á myndinni hélt hann á Mature Blue Stilton frá Marks & Spencer og virðist sem myndin hafi verið tekin í verslun.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að rannsókn á fingraförum og lófanum á myndinni hafi sannað að það var Stewart sem hélt á ostinum. Í tilkynningunni er haft eftir Lee Wilkinson, lögreglumanni, að Stewart hafi verið umsvifamikill í sölu fíkniefna og að það hafi verið ást hans á Stilton osti sem kom upp um hann eftir að hann birti mynd á EncroChat þar sem hann hélt á osti. „Lófi hans og fingraför voru rannsökuð út frá þessari mynd og þá kom í ljós að þetta var Stewart,“ er haft eftir Wilkinson.
Stewart notaði EncroChat til að selja mikið magn fíkniefna en hann gekk undir nafninu „Toffeforce“. Sky News segir að um 60.000 manns um allan heim noti samskiptaforritið en það er þekkt fyrir að þar fer fram sala fíkniefna og einnig er hægt að komast í samband við leigumorðingja í gegnum það.