The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að það séu indverska og breska afbrigði veirunnar sem séu algengust í landinu. Segja má að önnur bylgja faraldursins hafi komið Argentínubúum að óvörum en þeir hafa búið við vægar sóttvarnaaðgerðir og fáir hafa verið bólusettir. Þetta hefur valdið miklu álagi á gjörgæsludeildir og sjúkrahús almennt. Í byrjun mars létust um 110 manns af völdum COVID-19 daglega, síðasta fimmtudag létust 744.
Argentína er nú í þriðja sæti á heimsvísu hvað varðar fjölda daglegra smita, aðeins Indland og Brasilía eru ofar á þeim lista. Hvað varðar dagleg andlát af völdum COVID-19 er Argentína nú í fjórða sæti, Indland, Brasilía og Bandaríkin eru ofar.
Ef miðað er við höfðatölu þá trónir Argentína á toppi listans yfir flesta látna á hverja milljón íbúa á degi hverjum en á þriðjudag í síðustu viku létust 16,46 af hverri milljón Argentínubúa. Í Brasilíu var hlutfallið 11,82 á hverja milljón.
Álagið á gjörgæsludeildir sjúkrahúsa er gríðarlegt og rúmlega 90% gjörgæslurýma eru nú í notkun á mörgum sjúkrahúsum. COVID-19 sjúklingar liggja víða á hjartadeildum og jafnvel göngum sjúkrahúsa því ekki er hægt að finna laus rúm annars staðar. Í sumum héruðum landsins er dánarhlutfall COVID-19 sjúklinga á gjörgæsludeildum 75%. Margar gjörgæsludeildir eru undirmannaðar, skortir tæki og annan búnað sem og lyf.