Á síðasta ári fækkaði Ítölum um tæplega 400.000 og eru nú um 59,3 milljónir.
Á síðasta ári fæddust 404.104 börn á Ítalíu og voru þau 16.000 færri en 2019. Fæðingar hafi ekki verið færri á einu ári á síðari tímum.
Meðalaldurinn á Ítalíu er 47 ár í dag, sá hæsti í Evrópu, sagði Draghi nýlega þegar hann ræddi um lækkandi fæðingartíðni sem hann segir vera eitt stærsta vandamál landsins.
Á ráðstefnu um lækkandi fæðingartíðni og sífellt eldri landsmenn sagði hann að Ítalía án barna sé land án trúar og áætlana. Hann sagði að lýðfræðileg þróun væri lykillinn að framtíðinni en eins og staðan væri núna stefndi í að örlög Ítalíu yrðu að þjóðin muni eldast og að lokum hverfa af sjónarsviðinu.
Sérfræðingar benda á að færri börn þýði lægri skatttekjur í framtíðinni. Það dregur úr framleiðni og gerir Ítölum erfiðara fyrir með að hugsa um sífellt eldri íbúa.