Í nýlegri umfjöllun CNN um málið er farið yfir það sem vitað er um fljúgandi furðuhluti og þá sérstaklega í ljósi þess að í júní munu bandarísk stjórnvöld birta skýrslu um málið og verður hún opinber öllum.
Bandaríkjaher hefur nýlega staðfest að myndbönd og ljósmyndir af undarlegum fljúgandi hlutum séu ósvikin. Þetta hefur kynt undir vangaveltur um hvað Pentagon veit um slíka hluti og hvað hefur verið gert í málunum. Bent er á að enn sé of snemmt að velta fyrir sér hvort þetta séu hlutir sem koma frá öðrum plánetum. Fljúgandi furðuhlutir eru skilgreindir sem fljúgandi hlutir sem líta öðruvísi út en flugvélar sem þekktar eru hér á jörðinni og hreyfa sig öðruvísi.
En hvort það eru geimverur sem stýra þessum loftförum, eða hvað sem þetta nú er, er annað mál. En sú staðreynd að bandarísk yfirvöld hafa nú viðurkennt að fljúgandi furðuhlutir séu til vekur auðvitað upp spurninguna um hvort við séum ein í alheiminum. Luis Elizondo, sem stýrði leynilegum rannsóknum Pentagon á tilkynningum um fljúgandi furðuhluti, sagði í samtali við CNN 2017 að persónulega telji hann „mjög sannfærandi gögn liggja fyrir um að við séu ekki endilega ein í alheiminum“.