Þetta eru niðurstöður nýrrar stórrar rannsóknar. Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamenn hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO telja að 745.000 manns hafi látist af völdum hjartaáfalla og hjartasjúkdóma, sem voru bein afleiðing langra vinnudaga, árið 2016. Þeir segja að heimsfaraldurinn geti gert stöðuna enn verri.
Rannsóknin leiddi í ljós að það eru 35% meiri líkur á að fá hjartaáfall og 17% meiri líkur á að deyja af völdum hjartasjúkdóms ef fólk vinnur 55 klukkustundir eða meira á viku samanborið við þá sem vinna í 35 til 40 klukkustundir.
Maria Neira, forstjóri umhverfisdeildar WHO, sagði að það að vinna 55 klukkustundir eða meira á viku hefði alvarlega heilsufarsáhættu í för með sér. „Það sem við viljum gera með þessar upplýsingar er að hvetja til aðgerða, að starfsfólk njóti meiri verndar,“ sagði hún.
72% þeirra sem létust voru karlmenn, miðaldra eða eldri, sem dóu margir hverjir eftir að hafa unnið langa vinnudaga árum saman. Flestir hinna látnu voru á aldrinum 60 til 79 ára og höfðu unnið 55 klukkustundir eða meira á viku þegar þeir voru á aldrinum 45 til 74 ára.
Rannsóknin náði yfir árin 2000 til 2016 en WHO segir að heimsfaraldurinn geti gert ástandið enn verra. Ástæðan er að þegar fólk vinnur heima hjá sér á það erfitt með að skilja á milli vinnunnar og einkalífsins og á sama tíma hafa verkefni aukist hjá mörgum því fyrirtæki hafa neyðst til að skera niður vegna faraldursins. WHO telur að minnsta kosti 9% fólks vinni langan vinnudag og segir að heimsfaraldurinn ýti undir þróun sem gæti leitt til lengri vinnudags.