Ástæðan er að það voru blaðamenn hjá Ekstra Bladet sem höfðu skipulagt innbrotið eða öllu heldur pantað það. Þeir höfðu leigt íbúðina og komið stólnum, „Egginu“ sem er hannaður af Arne Jacobsen, fyrir í íbúðinni. Honum átti að stela. Þeir pöntuðu innbrotið í lokuðum hóp á Facebook.
Allt var þetta liður í gerð þáttar fyrir TV3 þar sem blaðamennirnir ætluðu að sýna á dramatískan hátt hvernig er hægt að panta innbrot á netinu og kaupa þýfi. Í áætluninni fólst einnig að eftir þjófnaðinn átti að svífa á þjófana með myndavél að vopni og fá viðbrögð þeirra.
Saksóknari telur að blaðamennirnir fimm eigi að fá ráðningu vegna málsins. Þeir voru því ákærðir fyrir skemmdirnar á dyrunum, sem sagt eignaspjöll. Ekstra Bladet er einnig ákært í málinu en saksóknari féll frá ákæru á hendur Nordic Entertainment Gropu TV A/S, sem hét áður TV3.
„Við fyrstu sýn virðist kannski sem mikið sé gert úr skemmdum á einum dyrum. En í augum ákæruvaldsins snýst þetta ekki um verðmæti dyranna heldur um grundvallaratriði. Við getum ekki liðið að afbrot séu framin sem hluti af sjónvarpsþáttagerð,“ sagði Line Steffensen, saksóknari, og bætti við að það væri óréttlátt ef „þeir sem hvöttu til skemmdarverksins væru ekki sóttir til saka“.
Þjófarnir tveir eru einnig ákærðir. Bæði fyrir innbrotið sjálft og þjófnaðinn á stólnum og hótanir í garð blaðamanna þegar þeir svifu á þá með myndavélar. Þeir hótuðu þeim þá lífláti.
Ekki kom fram fyrir dómi hvað kostaði að gera við dyrnar en Ekstra Bladet fékk smið á vettvang til að lagfæra þær. Það er eitt aðalatriðið í málsvörn verjenda blaðamannanna. Þeir bentu einnig á að enginn hafi orðið fyrir tjóni vegna málsins og að blaðamennirnir hafi ekki haft í hyggju að hvetja til eignaspjalla. Þess utan telja þeir að fjölmiðlar hafi rúmt tjáningarfrelsi og nú sé ákæruvaldið að reyna að refsa þeim fyrir rannsóknarblaðamennsku.
Dómur í málinu verður kveðinn upp 1. júní.