Að auki gera indverska afbrigði veirunnar og hið breska ríkjunum erfitt fyrir auk sóttvarnaþreytu meðal almennings. Allt eykur þetta hættuna á nýjum alvarlegum faraldri í Afríku, faraldri af svipaðri stærð og alvarleika og faraldurinn á Indlandi. Þetta segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO.
Álíka margir búa í Afríku og á Indlandi og heilbrigðiskerfin í álfunni eru ekki burðug. „Það sem er að gerast á Indlandi getum við ekki hunsað í álfunni okkar,“ segir John Nkengasong, farsóttafræðingur og forstjóri Afrísku smitsjúkdómastofnunarinnar.
Afrískir sérfræðingar segja að það sem er að gerast á Indlandi geti gerst í Afríku ef yfirvöld í álfunni undirbúi sig ekki betur. Nkengason hefur sérstaklega miklar áhyggjur af heilbrigðiskerfi ríkjanna í álfunni. Þar starfa mun færri í heilbrigðiskerfinu en á Indlandi og í Afríku er ekki mikið framleitt af lyfjum og bóluefnum en það er hins vegar gert á Indlandi.
Afríkuríkin komust ótrúlega vel í gegnum fyrstu bylgju heimsfaraldursins á síðasta ári. Sérfræðingar telja að ástæðurnar séu lágur meðalaldur og reynsla Afríkubúa af ýmsum faröldrum. En einnig er talið að skráningum varðandi fjölda smita og dauðsfalla sé ábótavant og því gefi opinberar tölur ekki rétta mynd af faraldrinum.