Samkvæmt frétt Aftonbladet köstuðu mennirnir bensínsprengjum á lögreglustöðina og víðar. Fyrsta tilkynning um eld barst klukkan 22 og síðan héldu tilkynningar áfram að berast. Roger Erstedt, talsmaður slökkviliðsins, sagði í samtali við Sænska ríkisútvarpið að kveikt hafi verið í fjölda bíla um allan bæ og hjólhýsi.
Lögreglan segir að kveikt hafi verið í á um 20 stöðum, aðallega í bílum. „Okkur grunar að þetta hafi verið skipulagðar og samhæfðar aðgerðir þar sem þetta voru svo margar íkveikjur á skömmum tíma. Þetta getur ekki verið tilviljun,“ sagði Mikael Ehne, varðstjóri hjá lögreglunni, í samtali við Sænska ríkisútvarpið.
Allt tiltækt lögreglulið var kallað út og aðstoð fengin frá öðrum lögregluliðum.
Á meðan á þessu stóð var tilkynnt um mann vopnaðan skammbyssu en lögreglan telur að það hafi verið blekkingaraðgerð til að beina lögreglunni á ranga slóð.
Þremenningarnir voru handteknir í nótt en þeir eru grunaðir um aðild að íkveikjunum. Lögreglan telur að fleiri hafi verið viðriðnir málið og leitar þeirra. Ekki er vitað hvað mönnunum gekk til með þessu.