Það var áhöfn þyrlu frá spænska flughernum sem fann bátinn í síðustu viku. Fjöldi líka var um borð í bátnum en fólkið hafði dáið úr þorsta.
„Ég grét þegar ég sá þyrluna nálgast,“ sagði Aicha við fréttamann BBC á laugardaginn en þá hitti hún þyrluáhöfnina sem bjargaði henni. „Í fyrstu báðumst við fyrir þegar okkur rak um og skorti vatn. Fólk lá grátandi og bað um vatn áður en það dó. Sumir drukku sjó úr skó,“ sagði hún.
„Enginn megnaði að kasta hinum látnu í sjóinn,“ sagði hún einnig.
Cristina Justo, lautinant í spænska sjóhernum, sagði að þremenningarnir hafi þjáðst af mikilli ofþornun.
Aicha fór frá heimabæ sínum á Fílabeinsströndinni í nóvember og hélt til Máritaníu. Þar fékk hún pláss í bátnum fyrir ferðina örlagaríku. Aðeins eldri systir hennar vissi af þessu hættulega ferðalagi hennar.