Í gærkvöldi réðust Ísraelsmenn á 12 hæða fjölbýlishús á Gaza en þar voru einnig skrifstofur Hamas, sem eru samtök harðlínumanna sem fara með völdin á Gaza. Íbúum í húsinu hafði áður verið fyrirskipað að yfirgefa það.
Ísraelsher skrifar á Twitter að í loftárásum í nótt hafi lykilmenn í leyniþjónustu Hamas verði drepnir. Þetta hefur ekki verið staðfest af Hamas.
Sameinuðu þjóðirnar vara við að allsherjarstríð geti brotist út á milli Ísraels og Palestínumanna. Þetta segir í tilkynningu frá Tor Wennesland, útsendara SÞ í Miðausturlöndum. Hann hvetur stríðandi fylkingar til að láta af eldflaugaárásum strax.
Öryggisráð SÞ fundar í dag um stöðu mála.
Ekki er að sjá að ofbeldinu fari að linna ef miða má við orðræðu leiðtoga deiluaðila. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í gær að herskáir Palestínumenn muni „gjalda eldflaugaárásirnar dýru verði“.