Í Nýju-Delí vinna starfsmenn í líkbrennslum mikla yfirvinnu þessa dagana til að reyna að anna þeim fjölda brennslna sem þurfa að fara fram. Svo mikið er álagið á heilbrigðiskerfið og líkbrennslur að starfsfólk segir að opinberar dánartölur séu víðs fjarri því að vera réttar. Vísvitandi séu þær „fegraðar“. Starfsfólk í líkbrennslum segir að fjöldi brennslna og fjöldi útfara passi engan veginn saman við opinberar dánartölur.
The Times hefur eftir starfsmanni grafreits í Uttar Pradesh, sem er fjölmennasta ríki Indlands, að á tveimur vikum hafi fjöldi jarðsetninga þrefaldast. Hann sagði að ekki væri hægt að sjá tölur um þetta í opinberum gögnum því þegar eldra fólk deyi heima hjá sér sé það ekki skráð sem dauðsfall af völdum COIVD-19.
„Ástandið hefur versnar gríðarlega mikið síðan í fyrstu viku apríl. Við höfum upplifað fjór- eða fimmföldun dauðsfalla þar sem dánarorsökin er COVID-19, það sama á við um fjölda dauðsfalla sem eru opinberlega skráð sem „ekki tengt COVID-19“, „ sagði Syed Faizi, sem stýrir grafreit múslíma í Lucknow sem er höfuðborg Uttar Pradesh. „Við sjáum mikla aukningu dauðsfalla eldra fólks. Persónulega tel ég að eldra fólkið deyi af völdum COVID-19 en þar sem það deyr heima hjá sér og sýni eru ekki tekin eru þessi dauðsföll ekki talin með,“ sagði Faizi einnig.