The Guardian segir að í yfirlýsingu frá samtökunum komi fram að þau hafi ákveðið að hætta starfsemi og segja að þau hafi ekki gert neitt ólögmætt.
Ákvörðun yfirvalda um að stimpla samtökin sem hryðjuverkasamtök var byggð á þátttöku þeirri í árásinni á bandaríska þinghúsið þann 6. janúar og sögðu kanadísk yfirvöld að hætta stafaði af samtökunum. „Sannleikurinn er að við erum hvorki hryðjuverkamenn né samtök kynþáttahatara,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum sem var birt á Telegram síðu þeirra.
„Við erum rafvirkjar, smiðir, fjármálaráðgjafar, vélvirkjar og svo framvegis. En við erum líka feður, bræður, frændur og synir,“ segir í yfirlýsingunni.
Samtökin voru stofnuð 2016 og voru í fyrstu samtök sem mótmæltu pólitískri rétthugsun og sögðu karlmennsku bælda niður í Bandaríkjunum og Kanada. Samtökin fóru síðan að lofsama götuslagsmál. Stofnandi þeirra var Gavin McInnes sem er Kanadamaður búsettur í Bandaríkjunum.
Samtökin komust fyrst í fréttir í Kanada fyrir þremur árum þegar fimm félagar í þeim, klæddir í svarta og gula boli, sem eru einkennisbolir samtakanna, trufluðu mótmæli frumbyggja vegna umdeildrar styttu. Lokað var á samtökin á Facebook og Instagram í október 2018 eftir að þau höfðu brotið gegn reglum miðlanna um hatursræðu. Bandaríska alríkislögreglan FBI skilgreinir þau sem samtök öfgamanna.