Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem var nýlega birt í vísindaritinu Nature Climate Change. Niðurstöðurnar hafa komið mjög á óvart því þær benda til að ekki sé lengur hægt að reikna með að Amazon, sem er stærsti regnskógur heims, taki við því koltvíildi sem við mennirnir losum út í andrúmsloftið.
Vísindamennirnir rannsökuðu hversu mikið koltvíildi skógurinn tekur í sig og geymir þegar hann stækkar og báru saman við það magn sem losnar þegar skógur er brenndur eða eyðilagður á annan hátt. „Við áttum meira eða minna von á þessari niðurstöðu en þetta er í fyrsta sinn sem við höfum tölu sem sýnir að Amazon hefur breyst og er nú farin að losa CO2 út í andrúmsloftið,“ segir Jean-Pierre Wigneron, einn höfunda rannsóknarinnar. Hann segir jafnframt að ekki sé vitað hvenær þessi þróun nái þeim punkti að ekki sé hægt að snúa henni við.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að skógareyðing í formi skógarhöggs og með eldi hafi næstum fjórfaldast 2019 miðað við 2018 og 2017. Hún fór úr einni milljón hektara í 3,9 milljónir.
Mikil umskipti urðu í náttúruvernd 2019 en í byrjun ársins tók hinn hægrisinnaði Jair Bolsonaro við embætti forseta. Hann er þekktur fyrir efasemdir um loftslagsbreytingarnar og hann styður frekari skógareyðingu og landbúnað.