„Það sem við höfum séð á síðustu árum er að Kína beitir meiri kúgunum heima við og er árásargjarnara utanlands. Þetta er staðreynd,“ sagði Blinken.
Í síðustu viku ávarpaði Joe Biden, Bandaríkjaforseti, Bandaríkjaþing í fyrsta sinn síðan hann tók við embætti og lagði þá áherslu á að hann sækist ekki eftir átökum við Kína. Hann sagðist hafa sagt Xi Jinping, forseta Kína, að Bandaríkin „fagni samkeppni og sækist ekki eftir átökum“.
Blinken sagði að Kína væri það ríki heims sem hefði „hernaðarlega, efnahagslega og diplómatíska getu til að grafa undan heimsskipulaginu“. Hann sagði að Bandaríkin vilji verja þetta heimsskipulag. „En ég vil segja það alveg skýrt. Markmið okkar er ekki að einangra Kína eða halda aftur af Kína. Markmið okkar er að viðhalda heimsskipulaginu sem Kína ógnar.“
Spennan á milli Bandaríkjanna og Kína hefur farið vaxandi á undanförnum árum en Bandaríkin hafa gagnrýnt hernaðaruppbyggingu Kínverja og brot þeirra á mannréttindum. Þar á meðal meðferð þeirra á Úígúrum í Xinjiang héraði en kommúnistastjórnin sendir þá í það sem hún segir vera „endurmenntunarbúðir“ en á Vesturlöndum halda margir því fram að þessar búðir séu ekki annað en fangabúðir. Bandaríkjastjórn segir að líkja megi þessu við þjóðarmorð.