Löfven er undir vaxandi þrýstingi frá stjórnarandstöðunni um að herða lög og reglur er varða innflytjenda- og flóttamannamál. Það eru Modereaterna, Kristilegir demókratar, Frjálslyndir og Svíþjóðardemókratarnir en flokkarnir hafa tekið höndum saman um stefnumörkun í málaflokknum. Þetta eru stór tímamót því þetta er í fyrsta sinn sem Svíþjóðardemókrötunum er hleypt að samningaborðinu og til áhrifa en þeir hafa verið áhrifalausir á sænska þinginu allt frá því að þeir fengu fyrst þingmenn kjörna fyrir um áratug.
Flokkarnir hafa sett fram kröfu um að möguleikar útlendinga á að fá varanlegt dvalarleyfi í Svíþjóð verði takmarkaðir. Þeir vilja einnig ganga enn lengra en ríkisstjórn Löfven gerir í nýjum tillögum um vernd fyrir hælisleitendur en samkvæmt þeim tillögum munu börn og fullorðnir, sem ekki uppfylla skilyrði um að vera hælisleitendur, eiga möguleika á að vera áfram í Svíþjóð. Þetta vilja hægri flokkarnir ekki en þeir höfðu varla lagt tillögur sínar fram þegar brestir komu í samstöðu þeirra.
Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókratanna, sagðist vilja sjá enn harðari innflytjendalöggjöf en kæmi fram í þeim tillögum sem hægri flokkarnir hafa kynnt. Hann sagði tillöguna ekki vera góða en „ekki jafn slæma“ og tillögur ríkisstjórnarinnar. Hann sagðist helst vilja rífa núverandi lög um málefni innflytjenda og hælisleitenda í tætlur og loka alveg fyrir komur innflytjenda og hælisleitenda til landsins.