Samkvæmt frétt NBC News hafa átta félagar í bræðralaginu nú verið kærðir fyrir aðild að andláti Foltz. Þeir eru grunaðir um manndráp af gáleysi og að hafa spillt sönnunargögnum.
Saksóknarar segja að áttmenningarnir hafi látið Foltz og aðra sem reyndu að komast inn í bræðralagið fá 0,75 lítra áfengisflöskur og skipað þeim að tæma þær yfir kvöldið. Foltz tæmdi næstum því úr flöskunni og var svo ölvaður að félagar í bræðralaginu urðu að aðstoða hann við að komast heim. Þar skildu þeir hann eftir ósjálfbjarga.
Daginn eftir fannst hann meðvitundarlaus og komst aldrei aftur til meðvitundar. Hann lést þann 7. mars.
Paul A. Dobson, saksóknari, sagði í síðustu viku að inntökuathöfnin hafi endað með skelfingu og að áttmenningarnir hafi verið kærðir fyrir sinn þátt í málinu. Cory og Shari Foltz, foreldrar hins látna, sögðust þakklát fyrir að málið hafi verið tekið til rannsóknar og að áttmenningarnir verði dregnir til ábyrgðar.
Háskólayfirvöld hafa nú bannað starfsemi Pi Kappa Alpha.