Írönsku herskipin, eða öllu heldur hraðskreiðir bátar, voru frá Íranska byltingarverðinum. Þau sigldu of nærri Firebolt og öðru bandarísku herskipi sem voru á alþjóðlegu hafsvæði í Persaflóa.
Bandaríkjaher skýrði frá þessu í gær.
Svipaðir atburðir hafa átt sér stað öðru hvoru síðustu fimm ár en þó hefur verið lítið um þá síðasta árið.
Bandarískir embættismenn segja að ekki sé hægt að segja til um hvað Íranir höfðu í huga en benda einnig á að oft séu það yfirmenn á hverjum stað en ekki háttsettir leiðtogar landsins sem standa á bak við atburði sem þessa.
Í tilkynningu frá Bandaríkjaher segir að áhöfn Firebolt hafi varað áhafnir írönsku skipanna margoft við, bæði í gegnum talstöð og með öðrum hætti, en áhafnirnar hafi haldið siglingum sínum nærri bandarísku skipunum áfram. Af þeim sökum hafi aðvörunarskotum verið skotið og hafi írönsku bátunum þá verið siglt á brott.