Farið var fram á greiðslu lausnargjalds í rafmynt sem ekki var hægt að rekja. Lögreglan lagði mikla áherslu á að komast að hver hafði stofnað þá rafmyntareikninga sem greiða átti lausnargjaldið inn á. Þannig komst fyrrnefndur flugfarþegi undir smásjá hennar. Þegar hann gekk frá borði tóku rannsóknarlögreglumenn á móti honum og var hann fluttur beint í yfirheyrsluherbergi í flugstöðinni.
TV2 skýrir frá þessu og hefur eftir manninum að hann hafi ekki fengið miklar upplýsingar um af hverju lögreglan færði hann til yfirheyrslu. Hún stóð í sex til sjö klukkustundir og fékk maðurinn þá að vita að málið snerist um þjófnað á persónuupplýsingum í tengslum við alvarlegt mál sem væri til rannsóknar og væri mannslíf að veði. „Ég áttaði mig á að þetta var mjög alvarlegt,“ sagði maðurinn í samtali við TV2.
Ástæðan fyrir að hann var færður til yfirheyrslu var að nafn hans hafði verið notað við skráningu rafmyntareikningsins sem átti að greiða lausnargjaldið inn á. Lögreglan sagði honum að líklega hefði persónuupplýsingum hans verið stolið nokkrum árum áður og síðan hafi þær verið seldar á djúpnetinu. „Ég hef ekki hugmynd um hvenær eða hvernig þetta gerðist,“ sagði maðurinn. Hann fékk ekki vitneskju um að yfirheyrslan yfir honum tengdist hvarfi Anne-Elisabeth fyrr en lögreglan skýrði frá málinu þann 9. janúar 2019.
Hann tengist Tom Hagen, sem er grunaður í málinu, ekki neitt og segist telja að lögreglan hafi afskrifað hann sem málsaðila.
Nokkrum mánuðum eftir yfirheyrsluna fékk hann bréf frá lögreglunni þar sem honum var kynnt að hún hefði hlerað síma hans um tíma. TV2 hefur eftir honum að hann hafi ekkert við það að athuga og að hann hafi fullan skilning á að lögreglan þurfi að sinna starfi sínu.