Á sama tíma og margar Evrópuþjóðir reyndu að halda flóttamönnum og innflytjendum frá sér með strangri löggjöf tóku Svíar að sér hlutverk stórveldis í mannúðarmálum og tóku á móti flóttamönnum með opnum örmum. Þeir hertu að vísu útlendingalögin aðeins 2016 í kjölfar hins gríðarlega flóttamannastraums til Evrópu. Þau rök voru færð fyrir þessu að nauðsynlegt væri að herða löggjöfina þar sem önnur Evrópuríki hefðu ekki staðið undir ábyrgð sinni og tekið á móti þeim fjölda flóttamanna sem þau ættu eiginlega að taka á móti.
Samkvæmt nýju frumvarpi minnihlutastjórnar jafnaðarmanna undir forystu Stefan Löfven verða útlendingalögin nú hert til muna. Munu Svíar þar með verða á sömu línu og önnur Evrópuríki hvað varðar málefni flóttamanna og innflytjenda. Ekki er reiknað með öðru en að þingið samþykki frumvarpið sem verður væntanlega tekið til meðferðar í maí.
Samkvæmt því verður nú gerð krafa um að flóttamenn og innflytjendur læri sænsku og að þeir geti sannað að þeir geti framfleytt sér og búi yfir ákveðinni lágmarksþekkingu á sænsku samfélagi ef þeir vilja fá dvalarleyfi. Ein stærsta breytingin er að nú verða dvalarleyfi gefin út tímabundið en nú eru þau varanleg.