Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að maðurinn hafi drukkið fjóra hálfslítra orkudrykki á dag í tvö ár. Þetta endaði með hjartabilun og hann gat ekki lokið háskólanámi sínu. Skýrt er frá málinu í vísindaritinu British Medical Journal.
Áður en hann var lagður inn á sjúkrahús hafði hann í fjóra mánuði glímt við öndunarörðugleika og mikið þyngdartap. Hann lá á sjúkrahúsi í 58 daga, þar af um hríð á gjörgæsludeild. Læknar íhuguðu að senda hann í líffæraígræðslu því bæði hjarta og nýru höfðu skaddast.
Maðurinn átti sér enga aðra sjúkdómssögu. Orkudrykkirnir sem hann drakk daglega innihéldu 160 grömm af koffíni hver dós.
Í greininni í British Medical Journal er haft eftir honum að hann hafi glímt við sársaukafull fráhvarfseinkenni þegar hann drakk ekki orkudrykki og sagðist hann vilja sjá betri viðvaranir á umbúðum þeirra. Hann sagði að neyslan hafi valdið því að hann átti erfitt með einbeitingu, bæði hvað varðar daglegt líf og nám. Hann sagðist einnig oft hafa fengið mikinn höfuðverk og það hafi haft mjög neikvæð áhrif á daglegt líf hans.