Þetta kemur fram í grein sem Pedersen skrifar í Politiken í gær þar sem hann lýsir eftir eiganda fjársjóðsins sem hann kallar svo. Um er að ræða tæplega 3 kíló af silfurhnífapörum.
„Ég hika ekki við að slá því föstu að sá eða þeir sem stolið var frá tengist Íslandi, meti jólin mikils og að einhvers staðar sé 25 ára kona sem sakni skírnarskeiðar sinnar og gaffals,“ segir hann í grein sinni.
Tenginguna við Ísland segir hann greinilega því 30 skeiðar sé með áletruninni „Jól“, sú elsta frá 1960. Einnig séu margir af þyngri hlutunum með áletrunina „handsmíðað“. „Að lokum er falleg skeið og tilheyrandi gaffall með áletruðu stúlkunafni og dagsetningu, líklega skírnardegi stúlkunnar,“ segir hann.
Silfurmunirnir eru nú í vörslu lögreglunnar í Helsingør og geta eigendur silfursins snúið sér þangað eða sett sig í samband við Pedersen sem lýkur grein sinni á eftirfarandi hátt: „Okkur dreymir um að segja frá tárvotum atburði þegar silfrið, sem hefur verið sárt saknað, snýr aftur heim og tryggir þannig að fórnarlömb þjófnaðarins, sem kannski eða kannski ekki bera hið íslenska -dóttir eftirnafn, eigi gleðileg jól í ár.“