Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að 39 af hverri einni milljón COVID-19 sjúklinga hafi fengið blóðtappa en fimm af hverri milljón sem fékk bóluefni AstraZeneca. Rúmlega 500.000 COVID-19 sjúklingar tóku þátt í rannsókninni og var niðurstaðan að hættan á að fólk fengi blóðtappa væri 100 sinnum meiri en ef það hefði ekki smitast af kórónuveirunni.
Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að rannsókn danskra og norskra vísindamanna leiddi í ljós að 1 af hverjum 40.000, sem fær bóluefni AstraZeneca, muni fá blóðtappa. Af þessari ástæðu ákváðu dönsk heilbrigðisyfirvöld að hætta að nota bóluefnið og norsk heilbrigðisyfirvöld hafa mælt með því við ríkisstjórnina að Norðmenn hætti einnig að nota það.
Breska lyfjaeftirlitið segir að bóluefnið sé öruggt og áhrifaríkt en hefur ákveðið að fólk undir þrítugu fái það ekki því minni líkur séu á að fólk í þessum aldurshópi verði alvarlega veikt af COVID-19. En rannsókn Oxford háskóla sýnir að um þriðjungur þeirra sem fékk blóðtappa var fólk undir þrítugu.