Afganar óttast nú að átök á milli stjórnarhersins og Talibana muni harðna til muna þegar þeir síðarnefndu reyni að ná landinu á sitt vald eftir brotthvarf alþjóðahersins.
Á síðustu mánuðum hefur ofbeldisverkum gegn óbreyttum borgurum fjölgað mikið í landinu og þá sérstaklega þeim sem beinast gegn konum og börnum. Þetta kemur fram í upplýsingum sem Sameinuðu þjóðirnar birtu á miðvikudaginn. Einnig kemur fram að Talibanar ráði nú yfir stærri hluta landsins en þeir hafa gert síðustu tvo áratugi.
Ef Talibanar komast til valda mun það hafa í för með sér að réttindi kvenna verða skert mikið en á yfirráðasvæðum stjórnarinnar í Kabúl geta þær sótt sér menntun og litlar stúlkur fá að ganga í skóla. Það er Talibönum ekki að skapi. Þeir leyfa konum heldur ekki að vinna og eiga þær að halda sig heima og vera undirgefnar eiginmönnum sínum.
Í umfjöllun The Guardian er bent á að ekki sé öruggt að Talibanar nái völdum og að þeir hafi gefið í skyn að ef þeir komist til valda muni þeir hugsanlega verða sveigjanlegri en áður hvað varðar menntun kvenna. En hugsanlega eru þetta bara ummæli sem voru látin falla til að reyna að auka stuðning við hreyfingu þeirra.