Í tillögu Framkvæmdastjórnarinnar að Horizon 2021-27 rannsóknaráætluninni leggur Framkvæmdastjórnin til að lokað verði fyrir þátttöku margra núverandi samstarfsaðila. Þetta á til dæmis við um þróun ofurtölva en þær eru taldar verða mjög mikilvægar í framtíðinni og muni gegna lykilhlutverki í öryggis- og vopnamálum framtíðarinnar. Leggur Framkvæmdastjórnin til að til að hægt verði að ná markmiðum og vernda hagsmuni ESB fái aðeins Ísland, Noregur og Liechtenstein aðild að áætluninni auk ESB-ríkjanna.
Tillagan hefur vakið athygli í Bretlandi sem hefur fengið að vera með í Horizonáætlunni eftir Brexit en nú verður væntanlega breyting þar á.
Tillaga Framkvæmdastjórnarinnar kemur í kjölfar gagnrýni um að sambandið sé of bláeygt í samskiptum sínum við aðra leikendur á alþjóðasviðinu, til dæmis Kína og Rússland. Af þessum sökum vill Framkvæmdastjórnin styrkja „sjálfstæði“ sambandsins.