Business Insider og Page Six skýra frá þessu. Fram kemur að Kaur hafi höfðað mál á hendur Harry fyrir að hafa svikið loforð um að kvænast henni. Hún sagði að prinsinn hefði haft samband við hana í gegnum samfélagsmiðla og sagt henni að hann vildi kvænast henni. Greinilegt er að ekkert varð af því þar sem Harry er kvæntur Meghan Markel og býr með henni og syni þeirra í Bandaríkjunum.
Kaur krafðist þess að Haryana High Court myndi gefa út handtökuskipun á hendur Harry svo þau gætu „gengið í hjónaband án frekari tafa“. Hún sagðist einnig hafa sent föður Harry, Karli prins, skilaboð um að Harry væri trúlofaður henni.
Dómari hafnaði málaumleitan Kaur og sagði málatilbúnað hennar „ekkert nema dagdrauma um að giftast Harry“. Dómarinn sagði einnig að allur málatilbúnaður Kaur og skjalagerð hafi verið í ólagi og uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar séu. Að auki benti dómarinn á að „Harry prins“ hafi sent henni skilaboðin frá netkaffihúsi í þorpi í norðurhluta Punjab á Indlandi. Hér hafi því verið um svikahrapp að ræða sem hafi veitt Kaur í net sín.