Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem var birt í vísindaritinu The Lancet í gær.
Sérfræðingar hafa lengi haft áhyggjur af afleiðingum þess fyrir álfuna ef afbrigði, ónæm fyrir lyfjum, myndu þróast. Áhyggjur þeirra stafa ekki síst af þeirri staðreynd að 90% þeirra 400.000 sem létust úr malaríu 2019 voru Afríkubúar.
Malaría er bráður smitsjúkdómur sem sníkjudýrið plasmodium falciparum veldur en það berst í fólk með mýflugum.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að veikindi barna vörðu lengur ef þau voru smituð af stökkbreyttum afbrigðum sníkjudýrsins. Rúmlega 200 börn á aldrinum sex mánaða til fimm ára tóku þátt í rannsókninni. Þau fengu öll hefðbundna þriggja daga meðferð við smiti og síðan var fylgst með þeim í 28 daga. Þá voru 15% þeirra enn með sníkjudýr í líkamanum en það er merki um ónæmi.