Í dag verður bólusett með bóluefnum frá Pfizer/BioNTech og Moderna en dönsk heilbrigðisyfirvöld hafa gert hlé á notkun bóluefnisins frá AstraZeneca vegna nokkurra tilfella sjaldgæfra en alvarlegra blóðtappa sem fólk hefur fengið eftir að hafa verið bólusett með bóluefninu.
Í heildina verða rúmlega 101.000 manns bólusettir í dag. Til marks um umfangið má nefna að á Sjálandi, að Kaupmannahöfn undanskilinni, verða 19.640 manns bólusettir í 21 bólusetningarmiðstöð en venjulega eru aðeins 6 bólusetningarmiðstöðvar starfræktar þar. Um er að ræða sex sinnum fleiri bólusetningar en fara venjulega fram á einum degi.
Danir fá um 250.000 skammta af bóluefnum á viku fyrstu vikurnar í apríl en í maí er reiknað með að um 400.000 skammtar berist vikulega, í júní verði þeir 800.000 á viku og 1,3 milljónir í júlí.
Í lokaæfingu dagsins verður kannað hvort tölvukerfin ráði við álagið, hvort tímasetningar bólusetninga gangi upp og hvort flæði fólks til og frá bólusetningarmiðstöðvunum verði gott.