Tæplega 47% þjóðarinnar eru skráð í trúfélög, kristna söfnuði, moskur eða bænahús gyðinga, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Gallup. Fyrir tveimur áratugum var hlutfallið 70%. Gallup hóf að kanna þetta 1937 og fram til aldamóta var hlutfallið yfir 70% en breytingar hófust um aldamótin og síðan þá hefur sífellt fækkað í hópi þeirra sem eru skráðir í trúfélög. Nú eru um 66% þeirra sem eru fæddir fyrir 1946 skráðir í trúfélög en hjá aldamótakynslóðinni er hlutfallið 36%. Meðal ástæðna þessarar fækkunar eru að sögn blanda hægristefnu í stjórnmálum og kristinnar trúar, sem Repúblikanar hafa lagt mikla áherslu á, og aldamótakynslóðin sem verður sífellt meira afhuga trúarbrögðum. The Guardian skýrir frá þessu.
Fram kemur að í sumum ríkjum hafi Repúblikanar lagt áherslu á öfgakennda „kristna þjóðernisstefnu“ þar sem þeir reyna að þvinga sinni útgáfu af kristni upp á almenning sem hefur sífellt minni áhuga á trúarbrögðum. Bent er á að nýlega hafi ríkisstjórinn í Arkansas skrifað undir lög sem heimila læknum að neita að veita LGBTQ-fólki læknismeðferð af trúarlegum ástæðum og nokkur önnur ríki íhuga svipaða löggjöf.
Í könnun Gallup kom fram að á 20 árum hafi Demókrötum, sem eru félagar trúfélaga, fækkað um fjórðung, Repúblikönum um 12% og óháðum um 18%.
The Guardian hefur eftir David Campbell, prófessor og meðhöfundi bókarinnar American Grace: How Religion Divides and Unites Us, að ástæðan fyrir þverrandi áhuga þessara hópa á trúarbrögðum sé stjórnmálalegs eðlis, þetta séu „ofnæmisviðbrögð við trúuðum hægrimönnum“. „Margir Bandaríkjamenn, sérstaklega ungt fólk, telji trúarbrögð tengd við pólitíska íhaldsstefnu og þá sérstaklega Repúblikanaflokkinn. Þar sem það er ekki flokkurinn þeirra eða stefna þeirra vill fólkið ekki láta skilgreina sig sem trúað fólk,“ er haft eftir honum.