Í skýrslunni kemur fram að á næstu 10 árum eigi allt að tíu milljónir fleiri stúlkur á hættu að verða neyddar í hjónaband, áður en þær ná 18 ára aldri, vegna heimsfaraldursins. Ein af ástæðunum fyrir þessu er að skólar hafa verið lokaðir.
Þegar heimsfaraldurinn braust út á síðasta ári vöruðu mannréttindasamtök við því að lokun skóla myndi verða til að fleiri börn yrðu neydd í hjónaband. Í lok mars á síðasta ári áætlaði UNICEF að á heimsvísu myndu 89% skólabarna ekki geta sótt skóla vegna heimsfaraldursins, þar af 734 milljónir stúlkna. Lokun skóla eykur líkurnar á að stúlkur snúi ekki aftur eða hætti námi um 25% á ári að mati UNICEF.