Það að fólk ælir þegar það er með timburmenn er aðferð líkamans til að segja að eitthvað sé að. Áfengið er farið úr líkamanum þegar timburmenn gera vart við sig en úrgangsefnin eru þar enn. Æluþörfin kemur af því að líkaminn vill segja að það sé eitthvað að, það er eitthvað óeðlilegt í maganum. Þetta hefur videnskab.dk eftir Janne Tolstrup, hjá dönsku lýðheilsustofnuninni.
Hún sagði að það væri rétt að reykingar geri timburmenn enn verri en margir telja sig hafa reynslu af því. Hún sagði að það væri í raun verið að eitra fyrir líkamanum með reykingum og hann þurfi að bregðast við að brjóta eiturefnin niður og losa líkamann við þau. Hún sagði að ekki hafi verið gerðar stórar rannsóknir á tengslum reykinga og timburmanna en flest bendi til að reykingar geri timburmenn verri, sérstaklega fyrir þá sem ekki reykja daglega.
Hún sagðist ekki vita um neina aðferð til að losa algjörlega við að fá timburmenn en það sé hægt að draga úr þeim með því að drekka mikið af öðrum vökva en áfengi. Þannig sé komið í veg fyrir að líkaminn ofþorni. Sjálf sagðist hún gæta þess að drekka einn lítra af vatni áður en hún fer að sofa eftir að hafa neytt áfengis.