Í kjölfar málsins brutust víðtæk mótmæli út í Bandaríkjunum og víðar um heim. Málið þótt enn einu sinni sýna að að lögreglan beiti svart fólk óhóflegu ofbeldi. Nýlega gerðu borgaryfirvöld í Minneapolis sátt við fjölskyldu Floyd um bætur vegna dauða hans og fær fjölskyldan 27 milljónir dollara í bætur vegna málsins.
Kviðdómendur eiga erfitt verk fyrir höndum því kastljós fjölmiðla beinast að vonum að réttarhöldunum og þar með kviðdómendunum. Þeir 15 kviðdómendur sem hafa verið útnefndir hafa fullvissað dómarann um að þeir muni ekki láta neitt utanaðkomandi hafa áhrif á störf sín.
Kviðdómurinn á að skera úr um hvort Chauvin hafi gerst sekur um manndráp þegar hann hélt Floyd föstum í götunni með hné á hálsi hans í tæpar níu mínútur. Dómhúsið er afgirt með tvöfaldri öryggisgirðingu og því fer ekki fram hjá neinum að málið er alvarlegt og að ógn er talin steðja að dómnum. Hermenn og lögreglumenn gæta dómhússins.
Sex hvítar konur eru í kviðdóminum, þrír svartir karlar, þrír hvítir karlar, ein svört kona og tvær konur af blönduðum kynþáttum. Reiknað er með að réttarhöldin standi yfir í um mánuð.