Mexíkó hefur farið illa út úr heimsfaraldrinum, sjúkrahús eru undir miklu álagi, skortur er á súrefni og ástandið er víða hræðilegt. Ofan á þetta bætist hugsanlega hafa miklu fleiri látist af völdum COVID-19 en yfirvöld hafa skýrt frá. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu heilbrigðisráðuneytis landsins. Í henni kemur fram að tæplega 120.000 dauðsföll hafi ekki verið tekin með í opinberum tölum fram að þessu.
Samkvæmt samantekt Johns Hopkins háskólans hafa um 202.000 manns látist af völdum COVID-19 í Mexíkó en samkvæmt fyrrnefndri skýrslu er fjöldinn 321.000. Þetta sendir Mexíkó í annað sæti hins dapurlega lista yfir þau ríki þar sem flestir hafa látist af völdum COVID-19. Aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri látist eða um 550.000. Rétt er að hafa í huga að í Mexíkó búa 126 milljónir en í Bandaríkjunum um 330 milljónir.