Þetta sagði Helge Braun, starfsmannastjóri Angelu Merkel, kanslara, í samtali við Bild am Sonntag. „Við erum á hættulegasta stigi faraldursins. Næstu vikur munu skera úr um hvort við náum stjórn á honum,“ sagði hann.
Hann sagði að ef nýjum smitum heldur áfram að fjölga mikið sé vaxandi hætta á að næsta stökkbreytta afbrigði veirunnar verði ónæmt fyrir bóluefnum. „Þá þurfum við ný bóluefni til að geta byrja að bólusetja á nýjan leik,“ sagði hann.
Hann sagðist reikna með að draga muni úr smitum í maí þegar hlýnar í veðri og búið verður að bólusetja fleiri.
Ummæli hans féllu á svipuðum tíma og Jens Spahn, heilbrigðisráðherra, sagði að þörf sé á stöðva nær alla samfélagsstarfsemi í allt að 14 daga til að draga úr útbreiðslu veirunnar. Hann sagði að þörf sé fyrir aðgerðir eins og gripið var til á síðasta ári þegar Þjóðverjar voru hvattir til að halda sig heima og forðast að hitta fólk.
Á laugardaginn sögðu læknar á gjörgæsludeildum að eina leiðin til að koma í veg fyrir að sjúkrahúsin yfirfyllist sé að grípa til harðra sóttvarnaaðgerða og stöðva nær alla samfélagsstarfsemi í tvær vikur til viðbótar við bólusetningar og sýnatöku í miklum mæli.