Nýlega tilkynntu bandarísk stjórnvöld að Íslamska ríkið í Mósambík væru alþjóðleg hryðjuverkasamtök og gripu til refsiaðgerða gegn þeim og stofnanda þeirra, Abu Yasir Hassan.
Átök hafa farið harðnandi í Mósambík að undanförnu og ofbeldi hefur færst í vöxt. Um 670.000 manns hafa hrakist frá heimilum sínum vegna hrottalegra árása öfgasinna í Cabo Delgado héraðinu. Árásum og dauðsföllum fjölgaði mikið í héraðinu á síðasta ári miðað við árin á undan samkvæmt tölum frá ACLED samtökunum.
Íslamska ríkið hefur sótt í sig veðrið í Afríku að undanförnu og styrkt stöðu sína. Það er engin tilviljun að héraðið Cabo Delgado hefur orðið sérstaklega fyrir barðinu á öfgasinnum því þar er Mocímboa da Praia, sem er ein mikilvægasta hafnarborg landsins, en öfgasinnaðir íslamistar náðu henni á sitt vald í ágúst á síðasta ári. Stórar gaslindir og rúbínnámur eru einnig í héraðinu.