Japönsk stjórnvöld segja að önnur eldflaugin hafi flogið um 450 kílómetra áður en hún hrapaði í sjóinn utan við japönsku efnahagslögsöguna. Þetta virðist því hafa verið skammdræg eldflaug.
Yoshihide Suga, forsætisráðherra, sagði á fréttamannafundi að þetta hefði verið fyrsta eldflaugaskot Norður-Kóreu í tæplega eitt ár og að eldflaugaskotið ógni friði og stöðugleika á svæðinu og brjóti auk þess gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna.
Talsmenn suður-kóreska hersins skýrðu frá því í gær að grannarnir í norðri hefðu skotið tveimur eldflaugum á loft. Ekki hafa borist fregnir af hvar hin lenti.
Það er kannski engin tilviljun að eldflaugunum var skotið á loft í gær því þá hófst ferðalag ólympíukyndilsins til Tókýó þar sem Ólympíuleikarnir fara fram í sumar.