Samkvæmt nýju tölunum er virkni bóluefnisins 76% en áður hafði fyrirtækið sagt að hún væri 79%. Þetta þýðir að 76% færri sjúkdómstilfelli komu upp hjá þeim sem fengu bóluefnið en hjá þeim sem fengu lyfleysu. Fyrirtækið segir þó að bóluefni veiti 100% vernd gegn alvarlegum veikindum af völdum kórónuveirunnar.
Bandaríska lyfjastofnunin setti fyrr í vikunni ofan í við AstraZeneca fyrir að hafa stuðst við „úreltar upplýsingar“ þegar sú ályktun var dregin að bóluefnið veitti 79% vörn. Bandaríska lyfjastofnunin hefur ekki enn heimilað notkun bóluefnisins en það er nú þegar í notkun í ESB og Bretlandi. Það hefur verið töluvert í umræðunni að undanförnu vegna dauðsfalla í kjölfar bólusetninga með því.
Mörg ríki gerðu hlé á notkun bóluefnisins á meðan rannsakað væri hvort tengsl væru á milli dauðsfallanna og bólusetninga. Nokkur þeirra eru aftur byrjuð að nota bóluefnið og í gær var tilkynnt að notkun þess hefjist á nýjan leik hér á landi.