Ástandið hefur farið versnandi í Frakklandi og hefur ríkisstjórnin nú hert sóttvarnaaðgerðir. Hún forðast að tala „lokun“ eða „innilokun“ og talar í staðinn um „þriðju leiðin“ og „að stöðva útbreiðsluna án þess að loka fólk inni“. En það skiptir ekki máli hvaða orð eru notuð því raunveruleikinn er sá að frelsi milljóna Frakka hefur nú verið heft enn frekar. Í mörgum héruðum hafa sóttvarnaaðgerðir verið hertar og þá aðallega í og við París og í héruðum í norður- og suðurhlutum landsins. Um er að ræða aðgerðir til fjögurra vikna sem þýða að nær allar verslanir eiga að vera lokaðar og fólk má ekki fara út fyrir 10 km radíus frá heimilum sínum. Útgöngubann er í gildi um allt land og gildir það frá klukkan 19 til 06 alla daga.
Á Ítalíu hafa sóttvarnaaðgerðir verið hertar eftir mikla aukningu smita en þar er þriðja bylgja faraldursins skollin á. Það sama á við í Póllandi þar sem aðgerðir hafa verið hertar. Í febrúar fengu hótel, söfn, kvikmyndahús og leikhús að opna á nýjan leik en nú hefur þeim verið lokað aftur. Smit hafa ekki verið fleiri í landinu síðan í nóvember og aldrei hafa jafn margir COVID-19-sjúklingar verið í öndunarvélum að sögn BBC.
Þýsk yfirvöld hafa frestað afléttingu sóttvarnaaðgerða en smitum hefur farið fjölgandi í landinu að undanförnu og sagði Angela Merkel, kanslari, í síðustu viku að um veldisvöxt sé að ræða. Þjóðverjar eru hvattir til að halda sig heima um páskana. Messur verða aðeins á netinu og allar verslanir, nema matvöruverslanir, verða lokaðar. Fjöldatakmarkanir eru í gildi og mega að hámarki fimm manns frá tveimur heimilum hittast innanhúss. Það er breska afbrigðið sem tröllríður Þýskalandi þessa dagana. „Í ruan erum við að glíma við nýja veiru. Hún er miklu banvænni, miklu meira smitandi og smitar lengur,“ sagði Merkel í vikunni.
Á fréttamannafundi í síðustu viku um stöðuna í Evrópu sagði Hans Kluge, yfirmaður Evrópudeildar WHO, að „hættan sé enn mikil og til staðar“. Hann sagði að smitum fjölgi nú og færist í austur. Í þrjár vikur í röð hafi smitum fjölgað. Hann varaði Evrópubúa við að halda að bólusetningarnar séu ávísun á að hægt sé að slaka á sóttvarnaaðgerðum. „Það má enginn vafa leika á að bólusetningar, sérstaklega í ljósi þess að smitum fer fjölgandi í nokkrum löndum, koma ekki í stað lýðheilsu og samfélagslegra aðgerða,“ sagði hann.