Óhætt er að segja að hann hafi haft rétt fyrir sér en samkvæmt frétt Washington Post þá tapa bandarískir fjölmiðlar nú lesendum og áhorfendum í stórum stíl en sú þróun hófst þegar Trump flutti til Flórída þegar hann lét af embætti.
Árin á undan hafði þróunin verið í hina áttina, sífelld aukning áhorfs og lesturs. Margt dró fólk að fjölmiðlunum: Heimsfaraldurinn, Black Lives Matter, forsetakosningar, árásin á þinghúsið í Washington D.C. og auðvitað Trump.
CNN hefur fundið mest fyrir þessari fækkun áhorfenda og hefur misst 45% áhorfenda, á besta útsendingartíma, á aðeins fimm vikum. Þetta er mikið hrap á skömmum tíma og kannski sérstaklega í ljósi þess að í janúar komst stöðin á toppinn yfir þær bandarísku sjónvarpsstöðvar sem fá mest áhorf.
MSNBC hefur misst 26% áhorf en Fox News, sem er ansi „Trump-vinsamleg sjónvarpsstöð, hefur „aðeins“ misst 6% áhorf og er nú aftur orðin sú stöð sem flestir horfa á.
Dagblöðin hafa fundið fyrir því að nýr maður er sestur í forsetastólinn en Joe Biden er mun rólegri og yfirvegaðri en Trump og síður líklegur til að sjá dagblöðunum fyrir forsíðufréttum. Heimsóknum á heimasíðu New York Times fækkaði um 17% frá janúar fram í febrúar. Hjá Washington Post fækkaði heimsóknum á vefsíðu blaðsins um 26% á sama tíma.
Þetta er auðvitað töluverð breyting því bandarískir fjölmiðlar höfðu það gott hvað varðar lestur og áhorf á valdatíma Trump enda yfirleitt nóg til að fjalla um. Washington Post bætti við tveimur milljónum áskrifenda við á valdatíma Trump og hjá New York Times fjölgaði áskrifendum úr 3 milljónum í 7,5 milljónir.
Það sama á við um sjónvarpsstöðvarnar sem nutu góðs af Trump. Árið 2014 var meðaláhorfið á CNN, MSNBC og Fox News 2,8 milljónir á besta útsendingartíma. Áður en heimsfaraldurinn skall í upphafi síðasta árs var talan komin í 5,3 milljónir.