Norska ríkisútvarpið skýrir frá þessu. Vitað var að breska afbrigðið er meira smitandi en upprunalega veiran og hefur breska afbrigðið víða náð yfirtökunum í faraldrinum, til dæmis í Noregi og Danmörku.
Line Vold, deildarstjóri hjá FHI, sagði að fólk, sem er smitað af breska afbrigðinu, sé 2,6 sinnum líklegra til að þurfa að leggjast inn á sjúkrahús vegna COVID-19 veikinda. Norska rannsóknin sýnir einnig að breska afbrigðið getur valdið alvarlegum veikindum hjá fólki yngra en 40 ára.
„Hættan er enn lítil í yngstu aldurshópunum en eykst nokkuð frá tvítugu og upp úr. Við höfum það mikið af gögnum um það að við getum ályktað það,“ sagði Vold.
Í byrjun mars voru rúmlega 70% allra smita í Noregi af völdum breska afbrigðisins en það uppgötvaðist fyrst í Bretlandi í september. Almennt eru sérfræðingar sammála um að afbrigðið sé mun meira smitandi en upphaflega veiran.