Fyrr á árinu tilkynnti vinstri flokkurinn Más País að ríkisstjórnin hefði fallist á tillögu hans um að gera tilraunir með fjögurra daga vinnuviku. Viðræður hafa staðið yfir að undanförnu um tilhögun tilraunanna. „Með fjögurra daga vinnuviku (32 klukkustundir) erum við að hrinda úr vör mikilvægustu umræðu samtímans,“ sagði talsmaður flokksins á Twitter. The Guardian skýrir frá þessu.
Hugmyndin um fjögurra daga vinnuviku er ekki ný af nálinni og hefur notið vaxandi stuðnings víða um heim, má þar nefna á Nýja-Sjálandi og í Þýskalandi.
Stuðningsfólk þessarar hugmyndar telur að þetta muni auka framleiðni, bæta andlega líðan starfsfólks og hafa jákvæð áhrif á baráttuna gegn loftslagsbreytingunum.
Spænskir vinstri flokkar hafa tekið þessa hugmynd upp á sína arma en Spánverjar voru eitt fyrsta landið í Evrópu til að taka upp átta klukkustunda vinnudag en það gerðu þeir eftir 44 daga verkfall í Barcelona 1919.
Más País hefur lagt til að ríkið leggi 50 milljónir evra í verkefnið og að fyrirtæki geti sótt um styrk til að prófa fjögurra daga vinnuviku án þess að taka mikla áhættu. Flokkurinn telur að um 200 fyrirtæki getið tekið þátt í tilraunum með þetta og að þær nái til 3.000 til 6.000 starfsmanna. Vonast flokkurinn til að þær geti hafist í haust.