Samkvæmt fréttum danskra fjölmiðla þá er lögreglan sannfærð um að Servet hafi verið myrtur fyrir mistök og að þar hafi liðsmenn glæpasamtakanna Loyal To Familia, LTF, verið að verki. Samtökin hafa nú verið bönnuð í Danmörku.
Samtökin stóðu í átökum við önnur skipulögð glæpasamtök á þessum tíma, Brothas. Telur lögreglan fullvíst að meðlimir í LTF hafi verið gerðir út af örkinni til að myrða félaga í Brothas en fyrir mistök hafi þeir talið Servet vera félaga í þeim og myrt hann. Um þrjá liðsmenn LTF var að ræða.
Servet tengdist undirheimunum ekki á neinn hátt. Hann var skotinn sex skotum, úr skammbyssum, af þremur mönnum fyrir framan heimili sitt klukkan 21.05. Hann var þá að koma heim ásamt tveimur félögum sínum en þeir höfðu verið í fótbolta.
„Við erum sannfærð um að Servet var ekki sá sem átti að myrða þennan dag. Servet Abdija var venjulegur piltur sem var á hörmulegan hátt ruglað saman við meðlim glæpagengis sem átti að myrða,“ sagði Bjarke Dalsgaard, yfirlögregluþjónn, um málið í gær.
Í samtali við Ekstra Bladet sagði hann að út frá rannsóknargögnum og upplýsingum úr undirheimunum viti lögreglan að morðið hafi verið hræðileg mistök. „Þetta er „svartur kafli“ fyrir þá og „einhver“ í undirheimunum á erfitt með að búa yfir vitneskju eins og þessari,“ sagði hann.
Lögreglan fann nýlega Audi A6 bifreið sem morðingjarnir notuð til að flýja af vettvangi. Búið var að selja bifreiðina og tengist núverandi eigandi hennar morðinu ekki á neinn hátt. Lögreglan hefur verið með bílinn í sinni vörslu síðustu tvær vikur og er enn að rannsaka hann í leit að vísbendingum. Dalsgaard sagði að auðvitað væri erfitt að rannsaka bíl þremur árum eftir afbrotið en lögreglan geri það samt sem áður í þeirri von að finna einhverjar sannanir.
Í apríl 2019 var 34 ára karlmaður, af júgóslavneskum uppruna, dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa selt morðingjunum aðra byssuna sem var notuð við morðið. Hann hefur ekki viljað segja hver keypti hana.