Rodney Bryant, lögreglustjóri í Atlanta, sagði að fjórar konur, hið minnsta, væru á meðal fórnarlambanna og að þrjár þeirra væru líklega af asískum uppruna.
Um klukkan 18 að staðartíma barst lögreglunni tilkynning um rán í nuddstofu. Þegar lögreglumenn komu á vettvang fundu þeir þrjár konur sem höfðu verið skotnar til bana. Á sömu stund barst tilkynning um skothríð á nuddstofu hinum megin við götuna. Þar fundu lögreglumenn konu sem hafði verið skotin til bana en árásarmaðurinn var á bak og burt.
Síðar kom í ljós að norðan við Atlanta hafði staðarlögreglunni verið tilkynnt um skothríð á nuddstofu um klukkan 17 eða klukkustund áður en slíkar tilkynningar bárust í borginni sjálfri. Þar höfðu fimm verið skotnir. Tveir voru látnir þegar lögreglan kom á vettvang og tveir til viðbótar létust á sjúkrahúsi.
Upptökur úr eftirlitsmyndavél komu lögreglunni á spor meints morðingja, Robert Aron Long, sem var handtekinn í gærkvöldi um 240 kílómetra sunnan við Atlanta eftir eftirför. Lögreglan greip að lokum til þess ráðs að aka á bíl hans og þannig náðist að stöðva hann og handtaka. Lögreglan telur að Long hafi staðið á bak við allar árásirnar þrjár.