Smittíðnin í álfunni er nú sú hæsta síðan í byrjun febrúar og er nýjum og stökkbreyttum afbrigðum veirunnar kennt um. Í nokkrum löndum hefur verið gripið til aðgerða vegna þessa og önnur eru í startholunum. Mega íbúar þeirra því búast við hertum sóttvarnaaðgerðum á næstunni. The Guardian skýrir frá þessu.
Á Ítalíu greindust rúmlega 27.000 smit á föstudaginn og 380 létust af völdum COVID-19. Mario Draghi, forsætisráðherra, sagði þá að landið stæði nú frammi fyrir nýrri bylgju faraldursins. Sóttvarnaaðgerðir voru því hertar á Ítalíu í gær og nú má fólk aðeins yfirgefa heimili sín til að sinna nauðsynlegum erindagjörðum. Flestar verslanir verða lokaðar auk veitingastaða og bara.
Staðan er svipuð í Frakklandi, þar hefur smitum fjölgað mikið að undanförnu. Olivier Véran, heilbrigðisráðherra, sagði að staðan í París núna væri sú að 12. hverja mínútu sé einhver lagður inn á gjörgæsludeild í borginni. Nokkuð harðar sóttvarnaaðgerðir eru nú þegar í gildi en margir læknar þrýsta nú á ríkisstjórnina að herða þær enn frekar.
Í Þýskalandi fjölgaði smitum í síðustu viku frá því sem verið hafði vikurnar á undan. Smitsjúkdómastofnun landsins sagði að þriðja bylgjan væri nú skollin á. Sömu sögu er að segja frá Póllandi og er líklegt að hertar sóttvarnaaðgerðir verði kynntar í vikunni en nú þegar eru skólar lokaðir, strangar samkomutakmarkanir eru í gildi og veitingastaðir mega aðeins selja mat út úr húsinu.