Ríkisfréttastofa landsins hafði þá eftir henni að ef Biden og stjórn hans vilji sofa værðarlega næstu fjögur árin verði landið að forðast að styggja Norður-Kóreu. Ummælin falla í tengslum við sameiginlegar heræfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu í Suður-Kóreu þessa dagana. Mjög hefur verið dregið úr umfangi þeirra frá fyrri æfingum. Tony Blinken, utanríkisráðherra, og Lloyd Austin, varnarmálaráðherra, heimsóttu Suður-Kóreu og Japan nýlega til viðræðna við ráðamenn en sú heimsókn hefur eflaust farið illa í ráðamenn í Norður-Kóreu.
Í gærmorgun sagði Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, að stjórn Biden hefði ítrekað reynt að ná sambandi við Norður-Kóreu eftir ýmsum leiðum en án árangurs. Þessar samskiptaleiðir hafi alltaf virkað fram að þessu.
CNN hefur eftir sérfræðingum að líklegt sé að Norður-Kórea muni ekki svara tilraunum Bandaríkjanna til að taka upp viðræður við einræðisstjórnina að sinni. Fyrir því séu ýmsar ástæður, þar á meðal heimsfaraldurinn, endurskoðun stjórnar Biden á stefnu Bandaríkjanna í garð Norður-Kóreu, heimsóknir bandarísku ráðherranna til nágrannaríkjanna og orðræða einræðisstjórnarinnar.
Stjórn Biden hefur ekki enn opinberað stefnu sína í garð Norður-Kóreu en ólíklegt má teljast að Biden muni senda Kim Jong-un „ástarbréf“ eins og Donald Trump, forveri hans, gerði. Það eina sem hefur í raun komið fram um stefnu Bandaríkjastjórnar í garð Norður-Kóreu er að embættismenn hafa sagt að stefnan sé nú eins og áður að Norður-Kórea afvopnist algjörlega hvað varðar kjarnorkuvopn. Þetta fer að mati sérfræðinga illa í Norður-Kóreumenn og er að þeirra mati ekki til þess fallið að fá þá að samningaborðinu.