„Við erum með aukastól við matarborðið um jólin, hann hefur alltaf verið auður. Móður minni líkar vel að hugsa um James – ekki eins og hann sitji þarna – heldur að hann sé hjá okkur þegar við borðum jólamatinn,“ sagði Michael, 27 ára, bróðir James í nýjum sjónvarpsþætti um málið. Auk hans koma hálfbræður hans, Thomas 22 ára og Leon 21 árs, fram í þættinum sem heitir Lost Boy: The Killing of James Bulger. The Mirror skýrir frá þessu.
Málið skók heimsfréttirnar í febrúar 1993 þegar tveir 10 ára drengir námu James á brott þegar hann var með móður sinni í stórverslun í Liverpool. Síðan kom í ljós að þeir höfðu misþyrmt honum hrottalega áður en þeir myrtu hann. Limlest lík hans fannst nokkrum dögum síðar í nokkurra kílómetra fjarlægð frá stórversluninni.
Í nóvember, sama ár, voru Jon Venables og Robert Thompson fundnir sekir um að hafa myrt James og voru dæmdir til vistunar á viðeigandi stofnun en þeir voru á barnsaldri. Þar voru þeir allt til 2001 þegar náðunarnefnd mælti með að þeir fengju reynslulausn en yrðu alltaf undir eftirliti.
Bræður James koma fram í þættinum og segja frá hvernig það var að alast upp í fjölskyldu sem glímdi við svona mikla sorg. Foreldrar þeirra skildu 1993 en Michael fæddist níu mánuðum eftir morðið. „Það er ekki undarlegt að vera bróðir James. Við ólumst upp vitandi að hann var þarna, hvernig hann var, karakterinn hans. Heima hjá okkur höfum við talað mikið um James. Móðir mín hefur sagt sögur af honum. Hann hefur alltaf verið manneskja sem við vildum vita meira um og við vildum að væri til staðar frekar en að hann væri í bakgrunninum,“ sagði Michael.
Hvað varðar dauða James sagði Leon: „Ég hef enn ekki alveg skilið hvað gerðist og ég vil eiginlega ekki vita um smáatriðin.“
Bræðurnir lýsa því einnig hversu mikið móðir þeirra, Denise Fergus, verndaði þá og ætti þeirra þegar þeir voru börn og að hún hafi næstum aldrei sleppt augunum af þeim. Hún og faðir James skildu nokkrum mánuðum eftir morðið. Denise eignaðist Michael níu mánuðum eftir morðið og síðar Thomas og Leon með öðrum manni.