Undir umslaginu fann Hagen, að eiginn sögn, úr, giftingarhring Anne-Elisabeth, sem hún hafði borið í 49 ár, og annan hring. Hann hafði samband við lögregluna sem hóf umfangsmikla rannsókn sem stendur enn. Henni var þó haldið leyndri fyrstu 10 vikurnar. þegar skýrt var opinberlega frá málinu þann 27. janúar 2019 fékk Hagen dulkóðaðan tölvupóst frá aðila sem sagðist vera einn mannræningjanna. Innihald póstsins var ógnandi og snerist meðal annars um að Hagen hefði reynt að blekkja mannræningjana með því að hafa samband við lögregluna. Hann var einnig beðinn um að greiða 2,25 milljónir evra til að fá sönnun fyrir að Anne-Elisabeth væri á lífi. 8. júlí fékk hann aftur tölvupóst þar sem hann var hvattur til viðræðna við mannræningjann og lausnargjaldskrafan var lækkuð og hann nú beðinn um að greiða 1,35 milljónir evra fyrir að fá sönnun þess að Anne-Elisabeth væri á lífi. Daginn eftir greiddi hann þessa upphæð. TV2 skýrir frá þessu.
Til að sanna að Tom væri í raun í samskiptum við mannræningjana skrifuðu þeir um hlutina sem Tom fann undir umslaginu en það var eitt vandamál við þau skrif þeirra. Í tölvupóstunum nefndu þeir tvo hluti en ekki þrjá. „Þeir skrifuðu um úr og hring en ekki um tvo hringi, sem er rétt,“ hefur Tom sagt um þetta. TV2 segir að hann hafi verið mjög upptekinn af þessu og hafi margoft nefnt þetta við lögregluna og skrifað þetta í minnisblað sem hann sendi henni haustið 2019.
Lögregluna grunar að Tom hafi komið að hvarfi og morðinu á Anne-Elisabeth á einn eða annan hátt en lögreglan er þess fullviss að henni hafi verið ráðinn bani. Þessu neitar Tom alfarið. Hann hefur stöðu grunaðs í málinu.